Leiðtogi Serbnesku réttrúnaðarkirkjunnar segir að flóðin á Balkanskaga séu refsing almættisins fyrir hegðun samkynhneigðra í landinu. Þá hefur Amfilohije, leiðtogi rétttrúaðra í Svartfjallalandi, kennt Eurovision-stjörnunni Conchita Wurst um hamfarirnar.
Samkvæmt The Telegraph á Amfilohije að hafa sagt að flóðin væru „ekki tilviljun heldur viðvörun“ og að fólk ætti að hafna söngvaranum, sem fór með sigur úr bítum í keppninni sem fram fór í Kaupmannahöfn í maí.
Wurst er klæðskiptingur og vakti sigur hans í keppninni misjöfn viðbrögð víða um heim. Vildi þingmaður rússneska þingsins til að mynda meina að sigurinn táknaði „endalok Evrópu.“
Flóðin á Balkansskaga hafa þegar kostað tugi manna lífið. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og segja yfirvöld flóðin þau verstu frá því að mælingar hófust.
