Gunnar Örlygsson, fiskverkandi og frambjóðandi á lista Frjáls afls í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjanesbæ, er afar ósáttur með bréf sem Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæ, sendi pólskum innflytjendum í bænum. „Að bæjarstjórinn skuli lofa betrum og bót til allra nýbúa sem hann kjósa og taka sér það hlutverk fram yfir einkafyrirtæki út í bæ sem hafa ekki einu sinni hafið starfsemi og nefna þar launatölur er með öllu móti óskiljanlegur gjörningur.”
Gunnar segir Árna vera að „kasta olíu á eldinn“ í kjaramálum:
„Þá skal ekki heldur gera lítið úr þeim óróa sem bréf Árna hefur strax valdið á vinnumarkaði en um þessar mundir er umhverfi kjaramála afar viðkvæmt og hef ég persónulega strax fundið fyrir þessu sem atvinnurekandi á svæðinu. Bæjarstjórinn kastar nú olíu á eldinn og er ábyrgur fyrir vinnubrögðum sem erfitt er að lýsa með orðum.”
Býður Pólverjum í pylsur
Í bréfinu frá Árna til pólskra innflytjenda, sem má sjá hér að neðan í viðhengi og hluta af því hér að ofan, kemur fram að hann vilji fjölga verkamannastörfum sem gefi um 500 til 600 þúsund krónur í laun á mánuði. Bréfið er á pólsku og fjallar Árni um litla kosningaþátttöku pólskra innflytjenda, en tekur farm að þeir séu margir á svæðinu. Hann vill koma á vikulegum fundum með innflytjendum og býður Pólverjum í bjór og pylsur á fimmtudaginn, tveimur dögum fyrir kosningar.
Að auki býður hann þá velkomna til sín á bæjarskrifstofuna og telur Gunnar ekki rétt að nota eign bæjarins í þeim tilgangi að ná í atkvæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. „Mér finnst það afar ósmekklegt,“ segir Gunnar í samtali við Vísi.
Gunnar lítur það mjög alvarlegum augum að Árni hafi lofað ákveðinni launaupphæð fyrir hönd einkafyrirtækja. Gunnar er sjálfur í rekstri, hann er stjórnarformaður AG Seafood í Sandgerði. „Einhvers staðar myndi svona gjörningur kalla á umsvifalausa brottvikningu úr starfi. Þetta á ekki að líðast. Það má líkja þessu við að ég sjálfur hefði ákveðið að færa fiskvinnslufyrirtæki okkar frá Sandgerði yfir í Reykjanesbæ og að einhver oddviti hinna flokkanna sem nú bjóða fram fram, færi fram með sama hætti og lofaði ákveðnum launum fyrir hönd okkar fyrirtækis. Væru það eðlileg vinnubrögð?”
Innlent