Skoðun

"Ég nenni ekki að kjósa”

Björg Baldursdóttir skrifar
Þessa fullyrðingu hef ég heyrt nokkrum sinnum núna undanfarið.  Mig langar með nokkrum orðum að fá að ávarpa ykkur sem hafið ekki hugsað ykkur að nýta rétt ykkar til að kjósa.

Í mínum huga eru hrein og klár mannréttindi að að fara á kjörstað, mér finnst að með því að nýta kosningarétt minn þá sé ég að sinna samfélagslegri skyldu minni og láta í ljós mína skoðun á því hvernig samfélagi ég vil búa í. Með því er ég líka að virða lýðræðið sem ríkir á Íslandi, lýðræði sem við fengum svo sannarlega ekki gefins. Við skulum ekki gleyma því að ekki er svo langt síðan við konur fengum réttinn til að kjósa, það var árið 1915 sem konur fengu kosningarétt og kjörgengi til alþingis. Það skyldi enginn vanmeta þennan rétt og alls ekki sitja heima á kjördag þann 31. maí.   Ef þú vilt að þín afstaða skipti máli við mótun samfélagsins að þín rödd heyrist, þá verður þú að taka þátt.

Með kosningum til sveitastjórna höfum við tækifæri til að láta í ljós vilja okkar og hafa áhrif á samfélagsleg málefni.

Njótum þess að eiga val. Mætum á kjörstað og setjum x við þann flokk sem hefur á sinni stefnuskrá menn og málefni sem okkur hugnast. Að sjálfsögðu höfum við öll misjafnar skoðanir á því hvað okkur hugnast en við skulum ekki láta það stoppa okkur í að nýta atkvæðisrétt okkar. Það að ,,nenna” ekki á kjörstað er ekki í boði í mínum huga sem samfélagsþegn í Kópavogi.

Ég er búin að ákveða mig og ég kýs lýðræði, mannréttindi, aukna áherslu á málefni barnafjölskyldna, skólamál og frístundastyrk fyrir eldri borgara svo einhver dæmi séu tekin.

Ég ætla að fara í sunnudagsfötin mín þann 31.maí, virða lýðræðið, mæta á kjörstað og setja mitt X við B.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×