Enski boltinn

City fékk þunga refsingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manchester City varð nýlega Englandsmeistari í knattspyrnu.
Manchester City varð nýlega Englandsmeistari í knattspyrnu. Vísir/Getty
Manchester City má aðeins tilnefna 21 leikmann í leikmannahóp liðsins í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

City var einnig sektað um 9,2 milljarða króna fyrir að brjóta reglur UEFA, Knattspyrnusambands Evrópu, um fjárhagslegan rekstur knattspyrnufélaga.

City eru einnig settar skorður á leikmannamarkaðnum í sumar en félagið má aðeins eyða 9,2 milljörðum (49 milljónum punda) í nýja leikmenn auk þeirra tekna sem félagið aflar sér með sölu leikmanna.

Þar að auki er félaginu óheimilt að hækka launakostnað á næsta tímabili.

Alls brutu níu félög í Evrópu áðurnefndar reglur UEFA. Meðal annarra félaga sem var refsað var PSG í Frakklandi en félagið fékk svipaða refsingu og City.

City birti yfirlýsingu þar sem fram kom að félagið hafi hvort eð er aðeins notað 21 leikmann í Meistaradeildinni á þessari leiktíð og hafi ekki gert ráð fyrir því að eyða meira en 49 milljónum punda í leikmenn í sumar. Þar að auki býst félagið ekki við því að launakostnaður muni hækka.

Enn fremur kemur fram að forráðamenn félagsins greini á um túlkun á reglum UEFA varðandi kaup félagsins á leikmönnum fyrir árið 2010. „Félagið telur að það hafi farið eftir öllum settum reglum,“ sagði í yfirlýsingunni.

Ef City fer eftir reglum UEFA á næsta keppnistímbili verður hluti sektarinnar, um 6,2 milljarðar, endurgreidd.

Meðal annarra félaga sem var refsað voru Galatasaray frá Tyrklandi og rússnesku félögin Zenit og Anzhi. Öll hafa eytt mun hærri fjárhæðum síðustu ár en þau hafa aflað sér. Síðastnefnda félagið féll úr rússnesku úrvalsdeildinni fyrr í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×