„Liðið er mjög sterkt, okkar bestu menn eru þó Pétur Jóhannes Óskarsson sem er 120 kíló að þyngd og æfir jújítsú, Pétur Eyþórsson, nífaldur glímukóngur í íslenskri glímu, og Vignir Grétar Stefánsson, sem er margfaldur Íslandsmeistari í júdó. Ég er mjög bjartsýnn,“ segir Sveinn Kjarval í samtali við Vísi.
Sveinn er þjálfari tíu manna liðs tæknimanna sem ætla að leggja til atlögu við Gunnar Nelson á sviði Eldborgar í Hörpu í kvöld. Uppákoman er hluti af EVE fanfest sem fer fram í húsinu.
Sveinn bendir á að einn liðsmannanna, Jón Ingi Þorvaldsson, hafi einu sinni áður sigrað Gunnar. Það hafi þó verið í karate.
Bardaginn var sendur út í beinni á Vísi og lauk honum um klukkan 21 í kvöld.
Uppfært:
„Þetta gekk bara hörku vel. Þetta var rosa flott sýning og virkilega skemmtilegt,“ segir Gunnar Nelson, bardagakappi, sem atti kappi við ellefu aðra bardagakappa, í Eldborg í kvöld.
Andstæðingar Gunnars voru allir úr tæknigeiranum og starfa ýmist hjá CCP, Nýherja, Advania eða Twitch TV. Bardaginn var hluti af Eve fanfest sem fram fer þessa dagana í Hörpu.
Gunnar sigraði alla andstæðinga sína en hann segir þjálfarann Svein Kjarval hafa verið sinn erfiðasta mótherja. Gunnar blés vart úr nös á meðan bardögunum stóð.
Aðspurður hvað til stæði eftir bardagana ellefu sagðist Gunnar vera á leið í grillveislu með kærustu sinni, Auði Ómarsdóttur, sem á afmæli í dag.
