Fótbolti

Ísland áfram í 58. sæti á FIFA-listanum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Strákarnir spiluðu síðast við Wales og töpuðu ytra, 3-1.
Strákarnir spiluðu síðast við Wales og töpuðu ytra, 3-1. Vísir/Getty
Strákarnir okkar í íslenska karlalandsliðinu í fótbolta eru í 58. sæti á nýjum styrkleikalista FIFA sem gefinn var út í morgun en þeir standa í stað frá síðasta lista.

Þegar aðeins er litið á Evrópuþjóðir er Ísland í 31. sæti, á milli Noregs og Írlands. Wales, sem vann Ísland í síðasta vináttulandsleik, stendur einnig í stað en Gareth Bale og félagar eru í 47. sæti.

Ísland mætir næst Austurríki og Eistlandi í vináttulandsleikjum 30. maí og 4. júní. Eistar koma í heimsókn en leikurinn gegn Austurríkismönnum fer fram ytra.

Austurríki stendur einnig í stað á listanum en það er í 40. sæti, 18 sætum fyrir ofan Ísland. Eistar eru í 93. sæti og standa einnig í stað. Fáir vináttuleikir hafa verið spilaðir að undanförnu eins og alltaf á þessum árstíma.

Heims- og Evrópumeistarar Spánar eru sem fyrr í efsta sæti listans og á eftir þeim koma Þjóðverjar og Portúgalir. Brassar hoppa upp um tvö sæti og eru í fjórða sæti.

England er í 11. sæti, Bandaríkin fara niður um eitt og eru í því 14 og Hollendingar í 15. sæti.

Hér má skoða allan listann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×