Innlent

Reif þrjá tíu þúsund króna seðla í ræðustól Alþingis

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, reif þrjá tíuþúsund króna seðla í ræðustól Alþingis rétt í þessu. Jóni þykir þinginu hafa verið gefið alltof knappur tími til ræða um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Sparisjóðina:

„Kostnaður við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um Sparisjóðina, sem við ræðum í dag, kostaði 600 milljónir. Ef það á að vera fimm klukkustunda umræða í dag, degi eftir útgáfu hennar og við setjum það í samhengi, þá kostaði rannsóknarskýrslna 30 þúsund krónur fyrir hverja sekúndu sem við ræðum hana í dag, þessa fimm tíma,“ sagði Jón Þór.

Hann sagði mikilvægt að læra af sögunni – innihald skýrslunnar væri mikilvægt. „Þeir sem læra ekki af sögunni eru dæmdir til að endurtaka hana. Svona rannsóknarskýrslur eru mjög mikilvægar í því tilefni. Við getum farið rétt af þessu svo vel megi fara. Svo við getum haft eftirlit með yfirvaldinu.“

Jón Þór tók upp þrjá tíusundkróna seðla og sagðist ætla að rífa þá á einni sekúndu sem tókst þó ekki. Einar K. Guðfinsson, forseti Alþingis, sló á meðan ítrekað í bjöllu sína. „Sjáum hvernig mér tekst að rífa 30 þúsund krónur á einni sekúndu. Einn seðil eftir hvern annan. Eigum við að prófa?“ sagði Jón Þór.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra kom upp í pontu á eftir Jóni og sagðist treysta því að þeir seðlar sem hann reif hafi verið í einkaeigu.

Jón Þór hefur áður vakið athygli fyrir tilþrif í þingsal.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×