Viðskipti erlent

McDonald's lokar á Krímskaga

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Starfsmönnum McDonald's á Krímskaga verður boðið að færa sig á útibú í Úkraínu.
Starfsmönnum McDonald's á Krímskaga verður boðið að færa sig á útibú í Úkraínu. vísir/getty
Bandaríska skyndibitakeðjan McDonald's hefur ákveðið að loka öllum veitingastöðum sínum á Krímskaga í kjölfar innlimunar skagans inn í Rússland.

Keðjan segir lokunina vera af óviðráðanlegum ástæðum en bandarísk yfirvöld hafa beitt rússneska ráðamenn efnahagsþvingunum vegna ástandsins á skaganum.

Starfsmönnum McDonald's á Krímskaga verður boðið að færa sig á útibú í Úkraínu en þeim sem eru ófærir um það, eða hafa einfaldlega ekki áhuga á því, verður boðinn starfslokasamningur. Er það sagt benda til þess að ekki sé um tímabundnar lokanir að ræða.

McDonald's er ekki fyrsta fyrirtækið sem hættir starfsemi á Krímskaga eftir að héraðið gekk inn í Rússland. Póstflutningsfyrirtækið Deutsche Post tekur ekki lengur við pósti til skagans.

Þá hafa íbúar Krímskaga ekki lengur aðgang að meþadóni, en það er lyf sem notað er við heróínfíkn. Um 800 fíklar í afeitrun eru á svæðinu og hafa margir lýst áhyggjum yfir því að meþadónskorturinn muni auka fíkniefnaneyslu og tíðni HIV-smita.


Tengdar fréttir

Pútín gagnrýnir afskipti Vesturveldanna

Vladimír Pútín ávarpaði rússneska þingið í dag eftir að hafa undirritað sáttmála við leiðtoga Krímskaga um að landsvæðið yrði formlega hluti af Rússlandi. Hann sagði ráðamenn í Úkraínu rússafælna gyðingahatara og gagnrýndi vesturveldin fyrir afskipti af nýafstöðnum kosningum.

NATO slítur öllu samstarfi við Rússa

Anders Fogh Rasmussen, fráfarandi framkvæmdastjóri NATO, tilkynnti þetta á blaðamannafundi í gær og sagði hann jafnframt að besta leiðin til að leysa þá deilu sem ríki í samskiptum Rússa og Úkraínumanna væri með pólitískum viðræðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×