Viðskipti innlent

Gísli Súrsson í forgrunni ferðaþjónustu í Dýrafirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eina skipið sem skráð er sem víkingaskip í íslensku skipaskránni verður gert út á Dýrafirði í sumar til að sigla með ferðamenn. Áætlað er að fimm til sex manns verði í vinnu á víkingasvæði á Þingeyri þar sem Gísla saga Súrssonar verður í forgrunni.

Víkingaskipið var smíðað á Þingeyri og sjósett fyrir sex árum. Þar er líka víkingagarður og þar verður hægt að sjá víkinga og helstu persónur Gíslasögu í fornaldarklæðum, en svæðið verður opið frá því snemma morguns og langt fram á kvöld í sumar.

Jón Þórðarson, sem nýlega flutti frá Bíldudal til Þingeyrar, er að skipuleggja starfsemina. Hann segir að skipinu verð siglt í sjóstöng og sólarlagsferðir, farið verði í gönguferðir í Haukadal og máltíðir grillaðar, bæði um borð í skipinu og á víkingasvæðinu. Þar verði líka húsdýr.

Gísla saga Súrssonar verður í forgrunni en Gísli bjó í Haukadal skammt utan Þingeyrar. Þar má enn sjá seftjörnina þar sem Gísli og félagar léku ísknattleik. Jón segir Gíslasögu mjög nákvæma í frásögnum af staðháttum og sögustaðirnir séu lítið breyttir frá því fyrir rúmum þúsund árum. 

Nánar er fjallað um víkingasvæðið og mannlífið á Þingeyri í þættinum Um land allt á Stöð 2 í kvöld.




Tengdar fréttir

Þekkir einhver strákinn fremst á ljósmyndinni?

Myndin sem Vigfús Sigurgeirsson ljósmyndari tók á Þingeyri sumarið 1951, í heimsókn Sveins Björnssonar, forseta Íslands, þykir afar skemmtileg, ekki síst vegna ljóshærða stráksins sem sést brosandi fremst á myndinni að fylgjast spenntur með brottför þjóðhöfðingjans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×