Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra leiddi líkur að því á Alþingi í dag að ástandið í Úkraínu mætti rekja til aðgerða Evrópusambandsins.
Þetta kom fram í svari Gunnars við spurningu Guðmundar Steingrímssonar um hvernig ráðherrann héldi að ástandið í Evrópu væri ef Evrópusambandsins nyti ekki við.
Gunnar sagði að margir héldu því fram að Evrópusambandið hafi staðið sig illa í aðdraganda byltingarinnar með því að setja of mikinn þrýsting á úkraínsk stjórnvöld.
Gunnar Bragi féllst á þær vangaveltur Guðmundar að Evrópa væri líklega friðsamari í dag en hún væri ef sambandsins nyti ekki við. Hann efaðist þó um að efnahagsástandið á Grikklandi og Spáni væri jafn svart ef ekki væri fyrir aðgerðir Evrópusambandsins.
Umræður um aðildarviðræður að Evrópusambandinu standa enn yfir á Alþingi.
