Genzebe Dibaba kom í mark á 3:55.17 mínútum en hún bætti gamla metið um meira en þrjár sekúndur. Rússneska hlaupakonan Yelena Soboleva var búin að eiga heimsmetið frá árinu 2006.
Genzebe Dibaba komst þarna í fyrsta sinn undir fjórar mínútur en hún átti best áður 4:00.13 mínútur.
Genzebe Dibaba er ekki sú fyrsta úr fjölskyldunni sem setur heimsmet því eldri systir hennar Tirunesh Dibaba setti á sínum tíma tvö heimsmet.
Þess má geta að nýlegt Íslandsmet Anítu Hinriksdóttur í 1500 metra hlaupi kvenna innanhúss er 4:19,39 mínútur sett um síðustu helgi.
Genzebe Dibaba verður 23 ára gömul um næstu helgi en hún varð heimsmeistari innanhúss í 1500 metra hlaupi árið 2012 og mun reyna að verja titil sinn þegar HM fer fram í Póllandi frá 7. til 9. mars.
