Innlent

Stokkseyrarmálið fyrir héraðsdómi: „Tilviljun ein að hér varð ekki mannsbani af“

Jóhannes Stefánsson skrifar
Úr dómsal.
Úr dómsal. Vísir/GVA
„Hann hafði sér ekkert til sakar unnið. Það var átakanlegt að hlusta á framburð brotaþola þegar hann sagði frá því hvernig hann var nakinn bundinn við burðarbita, með mél í munninum og með ofskynjanir. Þá voru árásarmennirnir ítrekað búnir að klifa á því að það væri ekkert mál að láta menn hverfa. Þá hafi hann í raun verið búinn að sætta sig við að hann myndi deyja,“ sagði lögmaður annars brotaþola í málflutningsræðu sinni í aðalmeðferð í Stokkseyrarmálinu.

Hann segir aðfarir ákærðu í málinu hafa verið slíkar að hending ein sé að hann sé enn á lífi. Vegna tjóns sem brotaþolinn varð fyrir krefst lögmaður hans miskabóta að fjárhæð fimm milljóna króna.

„Ásetningurinn var einstaklega einbeittur. Árásarmennirnir voru margir og létu sér ekkert segjast. Miskunnarleysi þeirra var algjört,“ segir lögmaðurinn.

Brotaþoli var samkvæmt ákæru og málflutningi réttargæslumannsins barinn á hrottafenginn hátt með bareflum, stunginn með skrúfjárni, bundinn svo hann gæti ekki borið fyrir sig hendi, látinn gleypa hnefafylli af óþekktum lyfjum og sprautaður í rass með óþekktu lyfi. Þá var kveikt í kynfærum hans og bringu og hann pyntaður svo klukkustundum skipti, áður en honum var sleppt.

Þá þurfti hann að gangast undir aðgerð vegna brotinna tanna eftir barsmíðar af hálfu ákærðu. „Það var tilviljun ein sem réði því, að hér varð ekki mannsbani af,“ sagði lögmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×