Tíska og hönnun

Rússar spenntir fyrir íslenskum ilmvötnum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Andrea sést hér tala við pressuna í Rússlandi.
Andrea sést hér tala við pressuna í Rússlandi. MYND/Úr einkasafni
„Við erum nýkomin frá Moskvu þar sem við vorum að heimsækja samstarfsmenn okkar og tala við pressuna,“ segir Andrea Maack, myndlistarkona og ilmhönnður, en vörur Andreu hafa slegið rækilega í gegn þar í landi.

„Við héldum móttökur í þremur risastórum verslunum, meðal annars versluninni Tsum í Moskvu, en það er einn voldugasti verslunarrisinn þar í borg,“ segir Andrea, en Tsum er stærsta deildaskipta sérvöruverslun í Austur-Evrópu, með yfir þúsund þekkt tískumerki á sínum snærum, meðal annars merki á borð við Harry Winston, Rolex, Dior, Chanel og svo mætti lengi telja. Auk þess er að finna í versluninni, veitingastaði, vindlastofu og Veuve Clicquot-kampavínsbar, svo eitthvað sé nefnt.

„Það er rosalega gaman að sjá hvað við erum að fá góðar viðtökur í Rússlandi. Sannarlega óvænt ánægja,“ segir Andrea jafnframt.

Andrea var einnig með kynningar í verslununum Gum og Vesna.

„Þetta eru allt æðislegar verslanir og heiður fyrir mig að komast að þarna. Það er svo ótrúlega gaman að upplifa Moskvu – það er rosa kraftur í öllum og öllu. Rússar eru svo miklir fagurkerar. Borgin er rosalega falleg og svo fundum við fyrir svo miklum áhuga og velvilja í garð Íslands,“ bætir Andrea við.

Andrea er nú komin aftur til Ítalíu þar sem hún starfar um þessar mundir.

„Ég ætla bara að halda áfram á meðan það gengur svona vel,“ segir Andrea, hógvær, en ilmvötn hennar eru nú fáánleg í yfir tuttugu löndum, allt frá Evrópu, til Bandaríkjanna til Miðausturlanda.

Erlend pressa hefur sýnt Andreu mikinn áhuga og fjallað hefur verið um Andreu í þekktum glanstímaritum á borð við Marie Claire, Costume, Elle og Vogue svo einhver séu nefnd.

Andrea segir það hafa komið henni ánægjulega á óvart hversu vel hefur gengið með ilmvötnin í Rússlandi.MYND/Úr einkasafni
Ilmhönnuðurinn Andrea Maack:



Andrea Maack er fædd árið 1977. Hún útskrifaðist úr myndlist í Listaháskóla Íslands árið 2005.

Andrea stofnaði fyrirtækið ANDREA MAACK PARFUMS formlega árið 2010, en fyrirtækið er íslenskt ilmvatnhús sem á uppruna sinn að rekja til myndlistarsýninga hennar. 

Árið 2010 voru þrjú ilmvötn sett á markaðinn á Íslandi. Í framhaldinu hófst öflug markaðssetning erlendis og hefur fjórum ilmvötnum verið bætt við flóruna. Varan er nú seld í yfir hundrað verslunum í Evrópu og Bandaríkjunum og þótt víðar væri leitað. 

Samstarf Andreu við ilmvatnsgerðarmennina (perfumera) er óvenjulegt að því leytinu til að þau vinna saman í að blanda ilmvötn út frá hugarheimi og myndlistarverkum hennar, en hver ilmur frá Andreu kominn er byggður á einhverju verka hennar.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×