Tíska og hönnun

Spennandi klippimyndir

Dagný Gísladóttir skrifar
Anna Kristín Þorsteinsdóttir
Anna Kristín Þorsteinsdóttir
Anna Kristín Þorsteinsdóttir býr til magnaðar klippimyndir úr ólíkum efnivið undir nafninu Hug rað-mynd.

Hún raðar saman myndum og hugmyndum og skapar einstök listaverk sem prýða nú marga veggi bæjarins.

„Ég hef gert klippimyndir frá því að ég var unglingur. Ég fór ekki í hefðbundinn framhaldsskóla, heldur í skóla í Noregi þar sem áherslur voru lagðar á listsköpun og handverk,“ segir Anna Kristín sem er menntaður textílhönnuður og við það að ljúka meistaranámi í þjóðfræði.

„Þar lærði ég að nota klippimyndir sem miðil til að koma hugmyndum mínum á framfæri. Þetta var miðill sem höfðaði vel til mín því í honum fékk ég útrás fyrir þörfina til þess að fást við fleiri en eitt efni í einu og fleiri en eitt verkfæri í einu.“

Anna segist hafa fundið mikið frelsi í því, þar sem það er svo margt sem spilar saman í klippimyndinni.

„Það er pappírinn, hnífurinn, skærin, límið og fleira.“

Hún segir að leitin að efni í klippimyndir geti verið ótrúlega spennandi og að hún leiti á furðulegustu stöðum að einhverju til að búta niður í mynd.

„Allt ferlið frá leitinni að efni, til fullkláraðrar myndar er svo fjölbreytt og margslungið og spannar oft langan tíma. Stundum kemur hugmyndin fyrst og svo framkvæmdin á mynd, en stundum er það efnið sjálft sem raðar sér niður í mynd. Yfirleitt upplifi ég mig í einhvers konar hugleiðsluástandi þegar myndin er að skapast.“

Anna Kristín fær innblástur úr bókum, úr ýmsum ólíkum textum. Hún segir að við lestur birtist henni sterkar myndir sem þurfi að komast á blað. Samskipti við annað fólk kalli líka fram slíkar myndir sem verða svo hugmyndir.

„Svo eru það einnig draumar og hugleiðsla sem veita mér mikinn innblástur.“

Anna Kristín notar mikið af táknum í klippimyndunum.

„Myndirnar segja undantekningalaust einhverja sögu, stundum með húmor eða drungalegum og kynferðislegum undirtón. Stundum koma fram pólitísk sjónarmið og ádeila eða heimspekilegar vangaveltur um lífið og manneskjuna, heiminn, ástina og kosmósið!“ 

Anna Kristín segir framtíðarsýn Hug rað-myndar vera að þroskast og þróast, segja fleiri sögur og kafa dýpra í undir- og yfirmeðvitund alls sem er. Hér er hægt að nálgast fleiri myndir eftir Önnu Kristínu.

Kona í fangi karlmanns.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×