Fótbolti

Margrét Lára: Eftir því sem maður eldist þá verða ákvarðanirnar erfiðari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
Landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir stendur á smá tímamótum því hún hefur ekki ákveðið hvar hún spilar á næsta tímabili. Margrét Lára var að klára fimmta tímabil með Kristianstad en veit ekki hvort hún tekur nýju samningstilboði frá liðinu.

„Það er ekkert komið á hreint ennþá,“ segir Margrét Lára aðspurð um framtíðina. „Þetta er búið að vera langt tímabil og mikið í gangi auk þess sem ég er að komast upp úr erfiðum meiðslum. Ég hef fengið vilyrði fyrir því að hafa tíma fram að áramótum til að ákveða hvað ég vil gera,“ segir Margrét Lára.

„Ég reikna með að þetta skýrist einhvern tímann í desember. Ég er að skoða mína möguleika og hvað er í boði. Ég er búin að fá samningstilboð frá Kristianstad. Það er inni í myndinni en ég fæ að bíða með að svara þeim þangað til í desember,“ segir Margrét Lára.

„Ég er búin að missa mikið úr undanfarin ár og hef ekki getað gert ákveðnar æfingar í mörg ár. Ég er farin að gera þær núna til þess að ná fyrri styrk. Það er fínt að fá þessa tvo mánuði í haust og nota þá vel til að koma mér í gott líkamlegt stand. Ég tel mig vera nokkurn veginn búna að sigrast á þessum meiðslum,“ segir Margrét Lára.

Margrét Lára er orðin 27 ára gömul og segir að þetta sé ekki bara fótboltaleg ákvörðun. „Eftir því sem maður eldist þá verða ákvarðanirnar erfiðari. Maður þarf þá að fara taka ákvörðun út frá öðrum vinklum líka,“ segir Margrét Lára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×