Fótbolti

Kveðjustund Eiðs Smára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen og Gylfi Þór Sigurðsson eftir leik.
Eiður Smári Guðjohnsen og Gylfi Þór Sigurðsson eftir leik. Mynd/Vilhelm
Ísland verður ekki meðal þátttökuþjóða á HM sem fer fram í Brasilíu næsta sumar. Það varð ljóst eftir 2-0 tap fyrir Króatíu í Zagreb í gærkvöldi. Eftir leikinn tilkynnti Eiður Smári Guðjohnsen að sautján ára landsliðsferli sínum væri lokið.

„Ég er ansi hræddur um að þetta hafi verið minn síðasti landsleikur,“ sagði tárvotur Eiður Smári í viðtali við RÚV skömmu eftir að leikurinn var flautaður af. Hann sagði við Fréttablaðið stuttu síðar að hann vildi ekki draga athyglina að sér.

„Ég held að við ættum að reyna að halda upp á þann árangur sem við náðum. Strákarnir eiga hrós skilið og svo sjáum við til hvað gerist,“ sagði Eiður Smári.

Eiður Smári er 35 ára gamall og á langan og glæsilegan feril að baki. Hann lék sinn fyrsta landsleik þegar hann kom inn á sem varamaður fyrir Arnór, föður sinn, í 3-0 sigri á Eistlandi ytra þann 24. apríl 1996.

Til stóð að Eiður og Arnór myndu spila saman næsta landsleik en Eiður meiddist stuttu síðar illa í unglingalandsleik gegn Írum og hann spilaði ekki annan landsleik í rúm þrjú ár.

Eiður spilaði alls 78 landsleiki á ferlinum og skoraði í þeim 24 mörk. Hann er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi og þegar hann sló markamet Ríkharðs Jónssonar árið 2007 hafði það staðið óhaggað í 45 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×