Handbolti

Sagan á bak við derhúfurnar hjá ÍR-ingum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristinn og Ingimundur þungt hugsi með húfurnar.
Kristinn og Ingimundur þungt hugsi með húfurnar. Mynd/Daníel
„Þetta er sérstakur styrktarsamningur sem við félagarnir gerðum við húsbílaleiguna Kúkú Campers,“ segir Kristinn Björgúlfsson, leikmaður ÍR.

Reynsluboltarnir Sturla Ásgeirsson, Ingimundur Ingimundarson auk Kristins hafa sett svip á upphitun liðsins með sérstökum derhúfum og hafa margir spurt sig hver ástæðan er fyrir þeim.

„Það var alltaf leyfilegt hér í gamla daga hjá ÍR að leikmenn máttu selja aðra ermina og gera eigin styrktarsamning, en núna hefur verið tekið fyrir allt slíkt.“

Kristinn starfar sjálfur hjá Kúkú Campers og hugmyndin kom frá yfirmanni hans einn daginn í vinnunni.

„Ég var að fara að taka á móti viðskiptavinum og fannst sniðugt að mæta á staðinn með svona derhúfu til að vera sýnilegri. Þá kom yfirmaðurinn minn með þá hugmynd að við myndum hita upp með þessar derhúfur fyrir leiki, og vandamálið væri leyst.“

Kúkú Campers býður erlendu ferðafólki að leigja bíla sem einnig er hægt að gista í á ferðinni um landið.

„Leikmönnum er frjálst að selja auglýsingar á búninga svo lengi sem þær eru ekki á vinstri ermi, sú ermi er ætluð fyrir aðalstyrktaraðila deildarinnar,“ segir Róbert Geir Gíslason, starfsmaður HSÍ, en Kristinn er sáttur með þessa nýju útfærslu þeirra ÍR-inganna. „Við fáum meiri athygli með þessu,“ segir Kristinn léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×