Forsvarsmenn Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps héldu á þriðjudag fund með landeigendum í Finnafirði vegna áforma um mögulega uppbyggingu á stórskipahöfn í firðinum. Sveitarfélögin gengu fyrr í sumar til samstarfs við þýska fyrirtækið Bremenport sem hyggst fara í rannsóknir á svæðinu áður en ákvörðun um byggingu stórskipahafnarinnar verður tekin.
Reimar Sigurjónsson, bóndi á Felli, einu jörðinni sem er í byggð í firðinum, lýsti óánægju sinni með áformin á fundinum.
„Ég er algjörlega á móti þessum framkvæmdum og tel að þær eigi eftir að eyðileggja fjörðinn. Það er margt sem þarf að huga að í tengslum við þetta mál og þar á meðal eru hugsanleg mengunaráhrif. Þarna verður miklu fórnað fyrir lítið þegar fram líða stundir og við munum ekki koma til með að búa í kyrrlátum firði eftir þetta,“ segir Reimar.
Hann bendir á að í aðalskipulagi Langanesbyggðar sé gert ráð fyrir stórskipahöfn í firðinum. „Skipulagið var um sex ár í vinnslu og á þeim langa tíma var aldrei haft beint samband við landeigendur á svæðinu.“
Ólafur Steinarsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar, segir að ekki verði farið í umrædda rannsóknarvinnu nema að gefnu leyfi landeigenda.
„Við munum leggja upp úr því að hafa mjög náið og gott samráð við landeigendur á þessu svæði,“ segir Ólafur og bætir því við að verkefnið verði kynnt fyrir íbúum í október næstkomandi.
Bremenport ætlar að stofna fyrirtæki hér á landi á næstunni sem mun standa að rannsóknum og athugunum á svæðinu. Sú vinna mun að öllum líkindum fela í sér uppsetningu mælitækja á sjó og landi og umhverfis- og jarðtæknirannsóknum. Áætlað er að rannsóknarvinnan taki um þrjú ár.
Fyrirtækið er á meðal stærstu rekstrar- og umsýsluaðila umskipunarhafna í Evrópu. Bremenport á meðal annars umskipunarhöfnina í þýsku borginni Bremerhaven, sem er næststærsta höfn sinnar tegundar í Þýskalandi.

