Viðskipti innlent

Hundruð tölvuskeyta á milli Jóns Ásgeirs og Lárusar

Stígur Helgason skrifar
Jón Ásgeir Jóhannesson er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Lárusar og Magnúsar Arnar. Lárus Welding var forstjóri Glitnis og er í ákærunni sagður hafa tekið við fyrirskipunum frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.
Jón Ásgeir Jóhannesson er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Lárusar og Magnúsar Arnar. Lárus Welding var forstjóri Glitnis og er í ákærunni sagður hafa tekið við fyrirskipunum frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Lárus Welding, forstjóri Glitnis, skiptust á tölvupósti í á fimmta hundrað skipti á tímabilinu sem til rannsóknar var í svokölluðu Aurum-máli sérstaks saksóknara, frá því síðla árs 2007 og fram á mitt ár 2008.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, upplýsti verjendur um þetta aðspurður við fyrirtöku í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Í málinu er enn tekist á um aðgang verjenda að gögnum. Þeir hafa krafist þess að fá aðgang að öllum rannsóknargögnum málsins en því hefur Hæstiréttur hafnað.

Í gærmorgun kröfðust verjendur svo afrita af tilteknum gögnum sem þeim hafði áður verið heimilað að skoða í húsakynnum saksóknara. Tekist verður á um þetta 23. september.

Enn hefur ekki verið ákveðið hvenær aðalmeðferð í málinu fer fram. Enn er beðið eftir yfirmati á virði félagsins Aurum Holding, sem málið snýst um, um mitt ár 2008. Sakborningarnir, Lárus, Jón Ásgeir, Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, eru sakaðir um umboðssvik við lánveitingu til kaupa á félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×