Handbolti

Efast stórlega um að ná að spila handbolta í vetur

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gunnar Harðarson mun að öllum líkindum hvíla út næstkomandi tímabil í handbolta, en hann berst við erfið bakmeiðsli
Gunnar Harðarson mun að öllum líkindum hvíla út næstkomandi tímabil í handbolta, en hann berst við erfið bakmeiðsli Mynd/Valli
Gunnar Harðarson mun að öllum líkindum ekki leika meiri handbolta á þessu ári og óvíst er hvort næsta tímabil er í hættu hjá leikmanninum. Gunnar hefur síðustu ár verið á mála hjá Valsmönnum og leikið þar stórt hlutverk í varnarleik liðsins sem og verið ákveðinn leiðtogi innan vallar. Hann hefur oft og tíðum verið fyrirliði liðsins.

Línumaðurinn er uppalinn í Safamýrinni og lék um tíma með Fram. Erfið bakmeiðsli virðast vera að setja strik í reikninginn hjá Gunnari en hann átti erfitt með að beita sér að fullu á síðasta tímabili.

„Ég efast stórlega um það að ég nái að spila handbolta á næsta tímabili,“ segir Gunnar í samtali við Fréttablaðið.

„Ég hef ekki enn þá náð mér góðum í bakinu og hugsa að ég verði í stúkunni næsta vetur. Það getur verið að maður komi til með að taka eitthvað þátt en það verður þá aldrei fyrr en seint á tímabilinu,“ segir Gunnar en það er óljóst hvað er að hrjá leikmanninn.

„Það er ekki nákvæmlega vitað hvað er að mér í bakinu. Þetta virðist vera einhver grindarskekkja en læknar hafa útilokað að um brjósklos sé um að ræða.“

Gunnar ætlar því líklega að hvíla út næsta tímabil og ná sér að fullu áður en hann fer aftur inn á handboltavöllinn. Ferillinn gæti samt sem áður verið í hættu og skórnir gætu þurft að fara upp í hillu. Mikill missir fyrir Valsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×