Íslenski boltinn

Það er enginn stærri en félagið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Páll Enarsson var rekinn sem þjálfari Þróttar.
Páll Enarsson var rekinn sem þjálfari Þróttar. Mynd/Ernir
Páll Einarsson var á dögunum rekinn sem þjálfari 1. deildarliðs Þróttar. Liðið situr í fallsæti eftir átta umferðir.

Í kjölfar brottvikningarinnar sagði meistaraflokksráðið af sér og liðsstjórnin hætti. Meistaraflokksráðið kvartaði yfir því að hafa ekki verið með í ráðum. Einn leikmaður félagsins er einnig hættur og annar ku vera að íhuga að hætta.

„Það er engin tilviljun að ekki var haft samráð við meistaraflokksráð um þessar breytingar. Það er engin hefð fyrir því að ráðið komi að ráðningum eða brottrekstri. Þetta eru því sömu vinnubrögð og hafa alltaf verið iðkuð innan Þróttar,“ segir Jón Kaldal, formaður knattspyrnudeildar Þróttar.

„Að sjálfsögðu viljum við hafa góða leikmenn í Þrótti en við viljum líka bara hafa menn í Þrótti sem vilja spila fyrir félagið af fullum hug.“

Jón segir ekkert óeðlilegt við það að þegar skipt sé um þjálfara verði ákveðnar breytingar.

„Það kemur maður í manns stað. Stjórnin hefur fengið mjög jákvæð viðbrögð frá fjölmörgum Þrótturum vegna þessara breytinga. Á sama tíma ber þetta fólk tilfinningar til Páls og finnst erfitt að sjá að baki honum. Fjölmargir Þróttarar gerðu sér grein fyrir því að það var kominn tími til að bregðast við mjög þungu gengi liðsins og litlum batamerkjum í síðustu leikjum,“ segir Jón og hafnar því að það sé einhver upplausn hjá félaginu.

„Margir Þróttarar taka þann pól í hæðina að Þróttur eigi skilið að njóta stuðningsins. Ekki þjálfari og ekki stjórn. Félagið er númer eitt, tvö og þrjú. Það er enginn stærri en félagið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×