Sport

Íslenska landsliðið hafnaði í fjórða sæti

Stefán Árni Pálsson skrifar
Íslenska landsliðið í frjálsum íþróttum stóð í ströngu um helgina en liðið tók þátt á Evrópumóti landsliða í Slóvakíu. Ísland hafnaði í 4. sæti á mótinu en liðið keppir í 3. deild.

Til að komast upp um deild varð íslenska sveitin að lenda í öðru sæti.

Ísland fékk samtals 437,5 stig en Moldóva hafnaði í 3. sæti með 455,5 stig. Slóvakar fóru með sigur af hólmi á mótinu en Lettland varð í öðru sæti.

Ásdís Hjálmsdóttir hafnaði í öðru sæti í spjótkasti sem og Óðinn Björn Þorsteinsson í kúluvarpinu.

Kolbeinn Höður Gunnarsson fékk silfur í 200 metra hlaupi.

Guðmundur Sverrisson fékk silfur í spjótkastinu með kasti uppá 76,35 metra og er það persónulegt met, en hann tvíbætti sig í spjótkastinu í gær.

Ásdís Hjálmsdóttir varð einnig í þriðja sæti í kúluvarpi, en Ásdís hefur ekki kastað kúlu í að verða tvö ár. Fínn árangur hjá Ásdísi sem lítið æfði greinina fyrir mótið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×