Innlent

Reynir að kæra sig inn á kjörskrá

Stígur Helgason skrifar
Guðmundur Franklín Jónsson
Guðmundur Franklín Jónsson
„Svona er þetta bara,“ segir Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna, sem uppgötvaði í gær að hann væri ekki á kjörskrá og þar af leiðandi ekki kjörgengur í komandi alþingiskosningum.

Guðmundur skipar efsta sætið á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi og segist hafa falið lögmanni sínum að reyna að kæra sig inn á kjörskrá. Hann segir að slíkt sé býsna algengt þegar kjósendur átti sig á því á kjörstað að þeir séu ekki á kjörskránni.

„Í versta falli þurfum við að finna nýjan mann í oddvitasætið,“ segir Guðmundur. Ekki þurfi að skila inn fullbúnum framboðslistum fyrr en 12. apríl. „Þannig að það er nógur tími til stefnu,“ segir hann.

Ástæða þess að Guðmundur er ekki á kjörskrá er sú að hann hefur verið með lögheimili erlendis lengi. Hann hefði þurft að skrá lögheimilið á Íslandi fyrir 23. mars, síðasta viðmiðunardag Þjóðskrár, til að verða kjörgengur í kosningunum.

Guðmundur segist þó áfram munu verða formaður flokksins, hvað sem gerist, og að þetta komi í raun ekki svo mjög að sök, enda sé það á stefnuskrá Hægri grænna að ráðherrar þeirra séu ekki jafnframt þingmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×