Sport

Aníta fær enn ein verðlaunin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty
Frjálsíþróttakonan Aníta Hinriksdóttir hefur safnað að sér verðlaunum á árinu 2013 og á dögunum fékk bætti hún enn einum við þegar þessi stórefnilega hlaupakona var kjörin frjálsíþróttakona ársins. Spjótkastarinn Guðmundur Sverrisson var kosinn frjálsíþróttakarl ársins. Þetta kemur fram á heimasíðu Frjálsíþróttasambandsins.

Guðmundur Sverrisson keppir fyrir ÍR en hann kastaði 80,66 metra í spjótkasti á Meistaramóti Íslands í sumar en hann bætti sig þá um 6,57 metra og var aðeins 44 sentímetrum frá lágmarki á HM. Guðmundur varð einnig Smáþjóðaleikameistari í spjótkasti og annar í keppni sinni í Evrópubikarkeppni landsliða. Hann var ósigrandi á mótum í sumar hérlendis og endaði árið í 46. sæti á heimslistanum.

Aníta Hinriksdóttir keppir einnig fyrir ÍR en hún tvíbætti Íslandsmet kvenna í 800 metra hlaupi á árinu. Aníta varð Heimsmeistari 17 ára og yngri í 800 metra hlaupi, Evrópumeistari 19 ára og yngri í 800 metra hlaupi og Norðurlandameistari 19 ára og yngri í bæði 800 og 1500 metra hlaupi. Aníta á nú áttunda besta árangur í sínum aldursflokki í 800 metra hlaupi og endaði árið í 44.sæti á heimslista fullorðinna.

Ein allra stærsta viðurkenning Anítu á árinu var þó þegar hún var valin vonarstjarna Evrópu af Frjálsíþróttasambandi Evrópu í haust.  Aníta á nú fimm bestu tímana sem íslensk kona hefur hlaupið í 800 metra hlaupi en þar á undan hafði Íslandsmetið staðið óhaggað í 28 ár.

Mynd/Frjálsíþróttasamband Íslands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×