Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Akureyri - HK 21-17 | Akureyringar í átta liða úrslit

Birgir H. Stefánsson í Höllinni á Akureyri skrifar
Mynd/Stefán
Akureyringar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Coca Cola bikars karla í handbolta með því að vinna fjögurra marka sigur á HK, 21-17, í Höllinni á Akureyri í dag. Þetta var annar sigur Akureyrar á HK í Höllinni á aðeins fjórum dögum.

Valþór Guðrúnarson skoraði mest fyrir Akureyri eða sex mörk og Kristján Orri Jóhannsson var með fimm mörk en Jovan Kukobat varði mjög vel í markinu eða 54 prósent skota sem komu á hann. Leó Snær Pétursson var markahæstur hjá HK með 4 mörk.

Það var óvanaleg ástand í Íþróttahöllinni á Akureyri þegar flautað var til leiks en vel innan við 100 manns voru þá upp í stúku, leiktími virðist hafa farið misvel í áhorfendur. Leikmenn voru þó tilbúnir og mættir, þrátt fyrir lítið um mörk þá var barátta í mönnum enda um bikarleik að ræða.

Heimamenn fóru betur af stað og skoruðu þrjú fyrstu mörk leiksins, framliggjandi vörn þeirra hélt áfram að valda leikmönnum HK vandræðum en gestirnir fóru þau að finna göt og þegar rúmlega tuttugu mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum kom Garðar Svansson HK yfir í fyrsta sinn.

Það var allt í járnum síðustu tíu mínútur hálfleiksins og leikmenn fóru að fjúka útaf fyrir of mikla hörku að mati dómara leiksins. Mistök voru einnig áfram áberandi hjá báðum liðum og því lítið um mörk. Þegar dómarar leiksins flautuðu til hálfleiks var staðan 8-7 fyrir Akureyri. Jovan Kukobat var heldur betur heitur í fyrri hálfleiknum með rétt tæplega 60% markvörslu á meðan Valþór Guðrúnarson var markahæstur heimamanna með fjögur mörk.

Það var í raun boðið upp á sömu uppskrift í seinni hálfleiknum. Heimamenn byrjuðu betur, gestirnir klóruðu sig inn í leikinn áður en Akureyringar settu aftur í gír. Jovan Kukobat hélt áfram að vera besti maður heimamanna, varði yfir helming þeirra skota sem hann fékk á sig og endaði með 18 skot varin.

Valþór Guðrúnarson var markahæstur með sex mörk, Kristján Orri Jóhannsson með fimm og Sigþór Heimisson átti einnig afar góða spretti og endaði með fjögur. Hjá HK var Leó Snær Pétursson markahæstur með fjögur en þar á eftir komu Andri Þór Helgason og Garðar Svansson með þrjú.

Samúel Ívar Árnason: Allt önnur tilfinning en eftir síðasta leik„Ég er bara mjög svekktur,“ sagði Samúel Ívar Árnason þjálfari HK strax eftir leik. „Það sem verður okkur að falli hér í dag eru líklegast fyrstu mínúturnar bæði í fyrri og seinni hálfleik, þar eru þeir sjö mörk í plús á þeim kafla. Það var alveg fyrirmyndar barátta hjá mínum strákunum finnst mér og þeir ætluðu að borga fyrir sig,“ sagði Samúel Ívar.

„Þetta var allt annar leikur en síðasta fimmtudag, við töpum þessum leik en þetta gat enda hvoru megin sem var. Við eigum tvo sénsa á að komast yfir, fáum færi niður í horni og klúðrum víti. Hvort sem það hefði skipt einhverju máli þá hefði það samt verið ákveðið búst fyrir strákana að komast yfir.“

Er það skotnýtingin sem skilur liðin að hér í dag?

„Helgi varði vel en Kukobat var að verja aðeins betur hinumegin. Við erum að klúðra fullt af góðum færum en það má líka segja um Akureyringa þar sem Helgi varði nokkra góða bolta. Jú, maður er svekktur með að hafa tapað og vera út úr bikarnum. Það er samt allt önnur tilfinning en eftir síðasta leik, nú vorum við með allan leikin og sýndum vilja en þetta einfaldlega féll ekki með okkur.

Heimir Örn: Förum glaðir á jólahlaðborðið um næstu helgi„Það var alveg bókað að þetta væri að fara að verða erfiðara,“ sagði Heimir Örn Árnason þegar hann var spurður að því hvort að þetta hafi verið erfiðari en leikurinn þremur dögum áður. „þeir voru bara miklu ferskari og við vissum það. Þeir voru í einhverjum vandræðum og prófastandi á fimmtudaginn. Óli t.d. var ferskari núna og mjög erfiður viðureignar. Vörnin var líka góð og þetta var bara helvíti gott, manni er eiginlega sama hvernig maður vinnur í bikarnum.“

Jovan Kukobat var heldur betur betri en ekki neinn í þessum leik

„Já, hann er búinn að vera frábær í vetur og mjög stöðugur sem er svolítið annað en í fyrra. Hann er bara búinn að æfa mikið betur og orðinn þessi markmaður sem við þurftum, er alveg hrikalega ánægður með hann.“

Ungir strákar eru að stíga upp hjá ykkur, Valþór verið áberandi og núna er Sigþór Heimisson að stimpla sig inn virðist vera.

„Hann er svolítil Vranjes týpa,“ sagði Heimir brosandi. „Hann var að setja glæsileg mörk hér undir lokin í skrefinu og allt. Hann er frábær og Valþór líka, eru að stiga upp og svo vonandi kemur bara Beggi með þeim  og þá höfum við bara mikla trú á þessu eftir áramót.“

Menn fara þá líklegast bara nokkuð brosandi inn í jólafríið?

„Já, við förum nokkuð glaðir á jólahlaðborðið um næstu helgi. Það hefði verið fljótt að breytast ef við hefðum tapað þessum leik, þá hefði verið þungt yfir okkur. Við erum samt bara þokkalega sáttir með átta stig og eina umferð inni, það hefur samt verið smá drasl í okkur. Svo er bara að vona að það verði fríar pulsur og hleðsla eins og í KA-heimilinu þá mæta 500 mans.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×