Fótbolti

Lars um Heimi: Ljúfur einstaklingur með mikla persónutöfra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson var á dögunum ráðinn annar tveggja landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og Eyjamaðurinn var í nærmynd í íþróttafréttum Stöðvar tvö í kvöld.

Valtýr Björn Valtýsson fékk fjölskyldumeðlimi og vini Heimis til að segja aðeins frá þessum 46 ára gamla Eyjamanni sem er tannlæknir í Vestmannaeyjum og með stofu í Eyjum.

„Það sem ég elska mest við hann er að hann hefur alveg einstakan húmor. Hann er ofboðslega léttur og skemmtilegur. Hann hefur svo góða nærveru og er svo hlýr og góður og sérstaklega við þá sem minna mega sín," sagði Íris Sæmundsdóttir, eiginkona Heimis.

„Heimir er fyrst og fremst traustur vinur og góður vinur. Hann leggur sig í öll verkefni sem hann tekur sér fyrir hendur. Ég held að það skipti ekki máli hvort hann er að þjálfa 6. flokk ÍBV eða íslenska landsliðið. Metnaður er settur í verkefnið," sagði Gunnar Leifsson, vinur Heimis Hallgrímssonar.

„Heimir er gríðarlega metnaðarfullur og það höfum við séð í gegnum tíðina þegar hann hefur verið að þjálfa bæði liðin hjá ÍBV. Hann er svo sannarlega góður í þetta starf því hann skoðar alla hluti leiksins mjög vel," sagði Þorsteinn Hallgrímsson, vinur Heimis.

„Hann er mjög ljúfur einstaklingur og býr yfir miklum persónutöfrum. Hann er klár náungi og það er mjög auðvelt að vinna með honum. Hvað varðar fótboltann þá hefur hann mjög góða sýn á leikinn," sagði Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands í fótbolta.

Það er hægt að sjá innslagið og fræðast þar um galla nýja landsliðsþjálfarans með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×