Fótbolti

Mandzukic fær mögulega þriggja leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Mandzukic eftir að hann fékk rauða spjaldið í gær.
Mario Mandzukic eftir að hann fékk rauða spjaldið í gær. Mynd/Vilhelm
Króatíski framherjinn Mario Mandzukic átti mikinn þátt í að koma Króatíu á HM í Brasilíu í gær þegar hann kom liðinu í 1-0 í 2-0 sigrinum á móti Íslandi. Hann breyttist reyndar fljótlega úr hetju í skúrk þegar hann lét reka sig útaf.

Mandzukic fékk hreint og klárt rautt spjald þegar hann fór með takkana í innanvert lærið á Jóhanni Berg Guðmundssyni og brotið leit ekkert betur út þegar það var sýnt í hægri endursýningu í sjónvarpinu.

Það á eftir að koma í ljós hver refsing FIFA verður en blaðamaður Guardian býst við að  Mandzukic fái þriggja leikja bann sem þýddi þá að hann missti af allri riðlakeppninni.

Fái Mandzukic þriggja leikja bann þá gæti hann misst af allri heimsmeistarakeppninni því eftir þrjá leiki í riðlinum gæti króatíska liðið allt eins verið úr leik.

Mario Mandzukic hefur spilað stórt hlutverk hjá Bayern München og var að skora sitt fjórða landsliðsmark á árinu á Maksimir-leikvanginum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×