Fótbolti

Dúkurinn enn á sínum stað - náðu að festa hann betur

Mynd/Daníel
Laugardalsvöllurinn þarf ekki að glíma við lægðina óvarinn því dúkurinn sem var hugsanlega á leiðinni af vellinum mun nú áfram verja grasið fyrir veðri og vindum.

Í gærkvöldi var dúkurinn farinn að losna við annan enda vallarins og í framhaldinu kom þessi færsla inn á fésbókarsíðu KSÍ: „Dúkurinn fer af í nótt vegna slæmrar veðurspár... Hann fer svo aftur á."

Það var kannski skiljanlegt miðað við slæma veðurspá en það er búist við vaxandi suðaustanátt með slyddu eða snjókomu í dag og síðar rigningu S- og V-lands, 18-25 m/s og talsverði úrkomu síðdegis.

Starfsmönnum Sports & Stadia sem sjá um MacLeod-dúkinn á Laugardalsvellinum tókst hinsvegar ásamt umsjónarmönnum Laugardalsvallar að festa dúkinn betur í nótt. Það er staðfest með annarri færslu inn á fésbókarsíðu KSÍ.

„Dúkurinn fór ekki allur af. Hann var lagfærður til á vellinum og er nú á sínum stað."

Ísland mætir Króatíu á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið í fyrri leik þjóðanna í umspili um sæti á HM. Dúkurinn verður á vellinum fram á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×