Fótbolti

Leikurinn verður aldrei fluttur úr landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, fylgist með veðurspánni nær allan daginn en hann var í viðtali við Valtýr Björn Valtýsson í kvöldfréttum Stöðvar tvö. Veðurspáin er ekki góð fyrir leik Íslands og Króatíu á föstudaginn í umspili um sæti á HM í Brasilíu.

Valtýr spurði Geir út í það hvort það gæti hugsanlega gerst að leikurinn yrði fluttur af Laugardalsvellinum og hvort að það væri til plan B ef veðrið verður mjög vont á föstudaginn.

„Það er ekkert plan B. Við verðum að leika hér á Laugardalsvellinum og ef veðrið verður svona slæmt þá þarf bara að finna einhvern glugga í verðinu þar sem að það er betra og við getum spilað. Til dæmis á laugardeginum," sagði Geir.

„Að mínu viti kæmi það vel til greina að færa leikinn á laugardaginn en það er náttúrulega ákvörðun Alþjóðaknattspyrnusambandsins. Almennt er það þannig að ef að það er ekki leikfært á leikdag þá er næsti dagur skoðaður," sagði Geir.

Leikurinn verður því aldrei færður úr landi ef veðrið verður kolvitlaust á föstudaginn. „Nei alls ekki. Við verðum að nýta heimavöllinn og við eigum rétt á heimavelli alveg eins og Króatarnir. Hér verðum við að spila fyrri leikinn," sagði Geir.

„Mér skilst það að veðurspáin sé ekkert sérstök fyrir föstudaginn en við þekkjum það að veðrið breytist hratt og fljótt á Íslandi. Nú biður maður bara um gott veður," sagði Geir.



Það er hægt að sjá frétt Valtýs með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×