Fótbolti

Ætla að reyna að lyfta dúknum í nótt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dúkurinn var lagður á Laugardalsvöll á föstudaginn.
Dúkurinn var lagður á Laugardalsvöll á föstudaginn. Mynd/Daníel
„Dúkurinn situr sem fastast og gerir sitt gagn því hann heldur allri bleytu frá vellinum,“ segir Jóhann Gunnar Kristinsson, vallarstjóri á Laugardalsvelli.

Dúkurinn, sem þekur Laugardalsvöll vegna landsleiks Íslands og Króatíu í knattspyru sem fram fer á föstudaginn, er hluti af kerfi sem miðar að því að halda vellinum frostfríum. Hluti af kerfinu er hitablásturskerfi sem ekki hefur verið hægt að nýta í gær og í dag vegna veðurs.

Jóhann Gunnar segir dúkinn því sem næst vatnsheldan og hleypi því engri rigningu í gegn. Í fyrramálið eigi hins vegar bæði að lægja og kólna. Þá verður reynt að finna gott augnablik, um miðja nótt, til að lyfta dúknum og koma hitakerfinu í gang.

„Veðrið verður vaktað frá klukkan þrjú. Svo verður reynt að lyfta honum á milli fjögur og sex í fyrramálið,“ segir Jóhann Gunnar. Fjórir starfsmenn breska fyrirtækisins sem leigir búnaðinn fylgdu honum hingað til lands. Þeir munu sjá um framkvæmdina í nótt en Jóhann Gunnar verður ekki langt undan.

„Ég verð þarna bara fyrir forvitnissakir. Þeir eru með lyklavöld og kveikja á ljósunum þegar þeir þurfa.“

Hér má sjá myndir frá því þegar dúkurinn var lagður á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×