Fótbolti

Ákváðu fyrirkomulag sölu seint um kvöld

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands.
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands. Mynd/Pjetur
„Ég talaði við Ólaf (Thorarensen) hjá midi.is seint í fyrrakvöld. Það var lokasímtal. Við vorum auðvitað búnir að vera í reglulegum samskiptum við þá,“ segir Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands.

Fjölmargir landsmenn vöknuðu upp við vondan draum í gær. Um áttaleytið hafði selst upp á viðureign íslenska karlalandsliðsins gegn því króatíska í umspili um laust sæti á heimsmeistaramótinu næsta sumar. Ljóst var að eftirspurn eftir miðum væri mikil, söguleg, og höfðu forsvarsmenn KSÍ tilkynnt, með dags fyrirvara, að miðar færu í sölu í gær. Aldrei kom þó fram klukkan hvað.

Þórir segir ákvörðunina um nákvæma tímasetningu á miðasölu ekki hafa verið tekna fyrr en í fyrrnefndu símtali sínu við Ólaf í fyrrakvöld. Úr varð niðurstaðan að miðasala hæfist klukkan fjögur að nóttu til. Ákvörðunin var Þóris.

„Hugmyndin var einfaldlega sú að reyna að tryggja jafna miðasölu fram eftir morgni og gekk það eftir þar til um klukkan 7 í morgun þegar um 3.000 miðar seldust á um 20 mínútum og á þeim tíma var gríðarlegt álag á kerfinu,“ segir í yfirlýsingu sem Þórir sendi frá sér síðdegis í gær. Þar sagðist hann taka fulla ábyrgð á ákvörðuninni, viðurkenndi að um mistök hefði verið að ræða og baðst afsökunar.

Ólafur hjá midi.is sendi sömuleiðis frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt var að sölukerfi midi.is væri „sett upp til að þola gríðarlegt álag og þótt allir miðarnir á leikinn hafi selst upp á tæpum 4 klukkutímum komu engir hnökrar upp í kerfinu“.

Þórir fylgdist sjálfur með því þegar salan hófst um nóttina. Hann segir greinilegt að einhverjir hafi vaktað miðasöluna og verið í startholunum um það leyti sem miðasala hófst. Hann segir þó gríðarlegan kipp hafa komið í söluna þegar fólk fór að ranka við sér á heimilum sínum um morguninn.

Stuðningsmannahópur íslenska landsliðsins, Tólfan, fékk miða til sölu síðdegis á mánudag. Um takmarkað magn miða var að ræða og fengu færri miða en vildu. Hópurinn fékk þó ákveðna vísbendingu um að sofa ekki yfir sig frá framkvæmdastjóranum.

„Þeir spurðu mig að því hvenær salan myndi hefjast. Það lá ekki fyrir. Ég sagði þeim að það yrði snemma í fyrramálið. Ég held að þær upplýsingar hafi einnig komið fram á Fésbókarsíðu KSÍ,“ segir Þórir.

Mynd/Vilhelm
Vísbendingar um miðabrask

Mest var hægt að kaupa sex miða í einu á landsleik Íslands og Króatíu á midi.is snemma dags í gær. Þó var ekkert sem kom í veg fyrir að fólk gæti keypt sex miða og svo aftur sex miða. Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segist hafa fengið ábendingar um að einhverjir hafi keypt óeðlilega marga miða og væru að reyna að hagnast á kaupunum með endursölu.

„En í þeim tilvikum, þar sem fólk hefur keypt óeðlilega mikið af miðum og miðarnir jafnvel komnir á sölu, verða miðakaupin bakfærð,“ sagði Þórir.

Mynd/Vilhelm
Nákvæm dreifing miða liggur ekki fyrir

Laugardalsvöllur tekur alls 9.700 manns í sæti. Miðunum var deilt á eftirfarandi hátt:

1.000 miðar til stuðningsmanna Króatíu.

1.500 miðar til samstarfsaðila KSÍ.

1.500 miðar til boðsgesta, fyrrverandi landsliðsmanna, fjölmiðla, leikmanna, Tólfunnar, A-passa.

5.000 miðar í almenna sölu.

700 miðar í annað, ekki hefur fengist uppgefið frá KSÍ hverjir fá þá miða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×