Fótbolti

Margrét Lára: Höldum okkur á lífi í þessum riðli með þessum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fyrra mark Íslands í 2-1 sigri á Serbíu í undankeppni HM 2015 í dag en Margrét Lára var í fyrsta sinn fyrirliði íslenska liðsins.

„Það er erfitt að koma til Serbíu og taka þrjú stig því þær eru lið sem er á uppleið. Þær gerðu 1-1 jafntefli við Danmörku hérna fyrr i vikunni þannig að við erum mjög sáttar með að ná í þessi þrjú stig," sagði Margrét Lára í samtali við Hilmar Þór Guðmundsson starfsmann KSÍ.

„Það fór rosaleg orka í fyrri hálfleikinn þegar við vorum að pressa þær hátt á vellinum. Við vorum að spila gríðarlega vel í fyrri hálfleik en aftur á móti vorum við ekki eins góðar í seinni hálfleiknum," sagði Margrét Lára.

Margrét Lára og Katrín Ómarsdóttir komu íslenska liðinu í 2-0 fyrir hálfleik.

„Pressan skilaði sér í fyrri hálfleik en það er kannski spurning hvort við hefðum ekki þurft að bakka aðeins fyrr til að spara orku fyrir seinni hálfleikinn. Við sluppum með þetta í dag og erum gríðarlega ánægðar með það," sagði Margrét Lára.

„Við vorum miklu betra liðið í fyrri hálfleik en misstum svolítið taktinn í seinni hálfleik en við spiluðum góða vörn og náðum að halda þessu. Það er það sem skiptir máli," sagði Margrét Lára en hann hafði hún áhyggjur af þróun mála þegar Serbía náði að minnka muninn í 2-1?

„Við erum komnar með gríðarlega reynslumikið lið og leikmenn eru að spila á háum standard í hverri viku. Við erum yfirleitt rólegar og héldum ró okkar. Þær voru að reyna pirra okkur og láta sig detta og annað en við héldum haus og kláruðum dæmið," sagði Margrét Lára en hefði íslenska liðið ekki þurft að vinna stærri sigur í þessum leik?

„Það skiptir ekki máli því við fengum þrjú stig á erfiðum útivelli og eftir erfitt ferðalag. Við erum gríðarlega ánægðar því við höldum okkur á lífi í þessum riðli með þessum sigri. Við hlökkum mikið til næsta árs," sagði Margrét Lára að lokum en íslenska liðið spilar átta af tíu leikjum sínum í riðlinum á árinu 2014.

Það er hægt að sjá allt viðtalið við hann með því að smella hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×