Fótbolti

Sara Björk: Duttum í smá stress í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir lék sinn 66. landsleik í dag þegar Ísland vann 2-1 sigur á Serbíu í undankeppni HM 2015 en hún er aðeins 23 ára gömul. Sara Björk var, eins og aðrar stelpur í íslenska liðinu, ánægð með að ná í þrjú stig út úr þessum leik í Belgrad.

„Mér fannst við hafa góð tök á leiknum í fyrri hálfleik þar sem við náðum að halda boltanum vel og vorum duglegar í pressunni. Mér fannst við missa tökin í seinni hálfleik og þær færðu sig þá aðeins framar," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir í viðtali við Hilmar Þór Guðmundsson, starfsmanns KSÍ.

„Við vorum svolítið stressaðar á boltanum í seinni hálfleiknum en á endanum tókum við þrjú stig," sagði Sara Björk sem átti þátt í seinna marki íslenska liðsins þegar hún flikkaði langri sendingu aftur fyrir sig á Hörpu Þorsteinsdóttur sem setti hann í fyrsta til hliðar á Katrínu Ómarsdóttur sem skoraði örugglega.  Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fyrra markið.

„Mér finnst við vera betri í fótbolta en þær. Við erum sterkari og betri í návígum og við sýndum það í fyrri hálfleik að við getum alveg haldið boltanum. Þetta er bara spurning um sjálfstraust en við duttum í smá stress í seinni hálfleik," sagði Sara Björk en það er hægt að sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×