Sport

Íslensku skylmingafólki hrósað í hástert

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigursælir skylmingakappar frá Íslandi.
Sigursælir skylmingakappar frá Íslandi. Mynd/Heimasíða Skylmingasambands Íslands
Íslenskir skylmingagarpar nældu í öll gullverðlaunin sem í boði voru á Norðurlandamótinu sem lauk í Finnlandi í gær.

Hilmar Örn Jónsson sigraði í ungmennaflokki karla eftir baráttu við Guðjón Ragnar Brynjarsson. Hilmar vann einnig sigur í karlaflokki á mótinu. Nikulás Yamamoto Barkarson hafnaði í þriðja sæti.

Í ungmennaflokki kvenna (U21) áttust við þær Þórdís Ylfa Viðarsdóttir og Aldís Edda Ingvarsdóttir og eftir einn glæsilegasta bardaga mótsins sigraði Aldís Edda 15:14. Í þriðja sæti voru Kolfinna Jónsdóttir og Freyja Stefnisdóttir.

Í úrslitum í liðakeppni áttust við lið Íslands og Finnlands. Ísland sýndi mikla yfirburði í leiknum og sigraði með 45 stigum gegn 18 stigum Finnanna. Í 3. sæti var Danmörk. Lið Íslands skipuðu þeir Hilmar Örn, Haraldur Hugosson, Gunnar Egill Ágústsson og Guðjón Ragnar.

Íslenska liðið var eins og fram kemur að ofan afar sigursælt á mótinu og nældi einnig í sex gullverðlaun á laugardeginum.

Finnski skylmingakappinn Mika Roman hrósaði framgöngu íslenska skylmingafólksins í hástert. Aðrar Norðurlandaþjóðir ættu um tvennt að velja. Leggja hart að sér til að byggja um kynslóðir til að veita Íslandi keppni eða fyllast sjálfsvorkunn. Finnar ætli sér fyrrnefnda kostinn.

Norðurlandamótið árið 2014 fer fram á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×