Innlent

Rannsaka líkamsárás á lykilvitni í Stokkseyrarmálinu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Lögreglan á Selfossi hefur hafið sjálfstæða rannsókn á líkamsárás sem átti sér stað um miðja síðustu viku. 

Maðurinn sem varð fyrir árásinni er húsráðandi í húsinu þar sem fórnarlambi í Stokkseyrarmálinu var haldið klukkustundum saman og það pyntað á hrottalegan hátt.Maðurinn sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins en var ekki ákærður og hefur nú stöðu vitnis.

Heimildir fréttastofu herma að tveir eða þrír menn vopnaðir hamri hafi bankað upp á á heimili mannsins á Stokkseyri í síðustu viku. Þar hafi þeir ráðist á hann og brotið á honum fingur og handabak með hamrinum. Maðurinn kærði árásina ekki til lögreglu, en lögreglan komst á snoðir um málið þegar hann leitaði læknishjálpar á Selfossi.

Ekki fékkst staðfest hjá yfirvöldum hvort líkamsárásin tengist Stokkseyrarmálinu með beinum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×