Helena Sverrisdóttir og félagar hennar í ungverska liðinu DVTK Miskolc byrja vel í Mið-Evrópu deildinni í körfubolta en Miskolc-liðið vann sannfærandi 37 stiga útisigur á ungverska liðinu Cegledi EKK í kvöld, 93-56.
Helena hefur verið að ná sér af meiðslum í kálfa og þau tóku sig aftur upp í kvöld. Miskolc-liðið stakk af strax í fyrsta leikhlutanum sem liðið vann 32-15.
Helena skoraði 11 stig á fyrstu fimm mínútum leiksins en kom ekkert meira við sögu í leiknum. Helena nýtti 5 af 6 skotum sínum og var með eitt frákast og einn stolinn bolta.
Bandaríski leikmaðurinn Brittainey Raven var stigahæst í liði Miskolc með 26 stig en Lettinn Liene Jansone skoraði 12 stig.
Miskolc vann einnig sigur í fyrsta leiknum sínum í keppninni og er því með fullt hús eftir tvær umferðir alveg eins og gömlu félagar Helenu í Good Angels Kosice. Helena skoraði 16 stig í fyrsta leiknum.
Helena með ellefu stig á fimm mínútum í stórsigri
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
