Fótbolti

Ein sú besta í heimi dæmir hjá íslensku stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bibiana Steinhaus.
Bibiana Steinhaus. Mynd/NordicPhotos/Bongarts
Þýski dómarinn Bibiana Steinhaus verður með flautuna þegar Ísland tekur á móti Sviss á fimmtudaginn í fyrsta leik sínum í undankeppni HM kvenna í fótbolta 2015. Leikurinn fer fram á Laugardalsvellinum og verður fyrsti leikur íslensku stelpnanna undir stjórn Freys Alexanderssonar.

Bibiana Steinhaus er 34 ára gömul lögreglukona og vakti mikla athygli í heimalandi sínu þegar hún varð fyrsta konan til að dæma í efstu deildunum í þýska karlaboltanum.

Bibiana er einn þekktasti og besti dómari heims og hefur dæmt tvo úrslitaleiki á síðustu tveimur árum, úrslitaleik HM í Þýskalandi 2011 og svo úrslitaleikinn á ÓL í London.

Hún dæmdi ekki úrslitaleikinn á EM í Svíþjóð í sumar enda Þýskaland að keppa en dæmdi þrjá leiki í keppninni þar á meðal leik Noregs og Spánar í átta liða úrslitunum.

Til aðstoðar Bibiana Steinhaus í leiknum verða þær Inka Müller-Schmäh og Angelika Söder en fjórði dómari er Bríet Bragadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×