Íslenski boltinn

„Nú finnst mér þetta komið gott hjá mér“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni (t.v.) og Sigurður Ragnar taka til hendinni á Laugardalsvelli.
Guðni (t.v.) og Sigurður Ragnar taka til hendinni á Laugardalsvelli. Mynd/GVA
Sigurður Ragnar Eyjólfsson segir aðstoðarmann sinn, Guðna Kjartansson, eiga afskaplega stóran og oft á tíðum vanmetinn þátt í árangri kvennalandsliðsins í knattspyrnu undanfarin ár.

Sigurður Ragnar rifjar upp í pistli sínum þegar Guðni tjáði honum í sumar að hann ætlaði að hætta sökum aldurs. Þá hafði Sigurður Ragnar ekki gert upp við sig hvort hann yrði áfram með liðið eður ei.

Guðni, sem er 66 ára, var aðstoðarmaður Sigurðar Ragnars með landsliðið frá fyrsta degi til þess síðasta. Sigurður segir Guðna hafa verið afar traustan og hjálpin ómetanleg.

„Hann stóð alltaf 100% við bakið á mér og veitti mér innblástur og stuðning í landsliðsþjálfarastarfinu.  Traustari mann get ég ekki fundið og mun sennilega aldrei finna,“ segir Sigurður og rifjar upp feril Guðna sem leikmann og þjálfara.

Guðni, sem var hluti af gullaldarliði Keflavíkur á áttunda áratugnum og fyrirliði íslenska landsliðsins um tíma, hefur starfað við þjálfun fyrir KSÍ í tæpa fjóra áratugi.

„Það mun enginn skilja það til fullnustu hvað hann hefur gefið kvennalandsliðinu nema ég. En þannig er hann, hann hefur aldrei sóst eftir viðurkenningu á sínum störfum.  Hann var kennari og köllun hans var að kenna fótbolta.“

Pistilinn í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×