Handbolti

Sagt að vona það besta en reikna með því versta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Daníel í leik gegn FH á síðustu leiktíð.
Daníel í leik gegn FH á síðustu leiktíð. Mynd/Vilhelm
„Ég vissi strax að eitthvað mikið hefði gerst,“ segir Daníel Berg Grétarssonar, leikstjórnanda HK.

Önfirðingurinn lenti illa í einni sókn HK í tapleik gegn Fram í Safamýri í gærkvöldi.

„Ég var að stökkva upp, losað mig við boltann og fékk smá snertingu þegar ég var að lenda,“ segir leikstjórnandi HK-inga. Hann segir löppina fyrir neðan hné hreinlega hafa færst úr stað.

„Ég vissi strax að eitthvað mikið hefði gerst,“ segir Daníel Berg sem var fluttur upp á spítala í gærkvöldi. Hann var kominn heim þegar fréttamaður heyrði í honum hljóðið fyrir stundu.

„Hnéð á mér er tvöfalt núna,“ segir Daníel Berg en af þeim sökum getur hann ekki farið í myndatöku fyrr en í næstu viku. Hann segist hafa getað hreyft sig aðeins á hækjum í gærkvöldi en ekki getað það í dag sökum verkja.

„Læknarnir sögðu mér að vona það besta en að búast við því versta,“ segir Daníel um alvarleika meiðslanna. Ekki verði hægt að fá skýr svör fyrr en eftir myndatöku í næstu viku.

„Þeir sögðu samt að þegar bólgan væri svona mikil væri yfirleitt eitthvað slitið.“

Daníel hefur spilað á rifnum liðþófa undanfarið ár sem hann segir hafa sloppið. Það gæti þó hafa haft áhrif á meiðslin sem hann varð fyrir í gær.

„Ég var oft orðinn helvíti aumur í fyrra. Svo fór maður á sjóinn á milli og þetta hjaðnaði.“

Ljóst er að meiðslin eru mjög slæmar fréttir fyrir HK en Daníel er lykilmaður liðsins. Það missti fjölmarga leikmenn fyrir tímabilið en deildin stendur illa fjárhagslega.

Félagið greinir engin laun ef marka má viðtal við varaformann handknattleiksdeildarinnar fyrir nokkrum vikum í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×