Sport

Ben Johnson berst nú gegn ólöglegri lyfjanotkun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ben Johnson.
Ben Johnson. Mynd/NordicPhotos/Getty
Kanadamaðurinn Ben Johnson breyttist úr hetju í skúrk á einu augabragði á Ólympíuleikunum í Seoul 1988 þegar hann vann 100 metra hlaupið á nýju heimsmeti en féll síðan á lyfjaprófi sólarhringi síðar.

Það kemur því kannski mörgum á óvart að Ben Johnson hefur nú snúið vörn í sókn og ætlar að hjálpa til að útrýma ólöglegum lyfjum úr íþróttum með því að taka þátt í Pure Sport herferðinni sem er með það markmið að "hreinsa" íþróttirnar í heiminum.

Ben Johnson er einn sá frægasti til að falla á lyfjaprófi en hann féll alls þrisvar sinnum á ferlinum og er því kannski er ekki sá fyrsti sem kemur í hugann til að sannfæra fólk um að nota ekki ólögleg efni nema ef til vill til að vera víti til varnaðar.

Til að vekja athygli á herferðinni mun Ben Johnson fara aftur til Seoul 24. september næstkomandi og stilla sér upp á braut sex á leikvanginum þar sem hann hljóp á 9,79 sekúndum fyrir 25 árum síðan. Sex af átta hlaupurum í úrslitahlaupinu í Seoul hafa fallið á lyfjaprófi en Johnson var sá eini sem féll í sjálfu hlaupinu.

Ástralski athafnamaðurinn Jaimie Fuller er á bak við herferðina en hann ætlar einnig að reyna að fá Lance Armstrong til liðs við sig. Hvort það takist er önnur saga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×