Handbolti

Eyjamenn unnu Ragnarsmótið - Róbert Aron bestur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Róbert Aron Hostert.
Róbert Aron Hostert. Mynd/Stefán
Nýliðar ÍBV hafa gefið tóninn fyrir komandi tímabil í karlahandboltanum því liðið vann ÍR í æsispennandi úrslitaleik á Ragnarsmótinu í handbolta sem lauk í kvöld. Þetta er árlegt undirbúningsmót fyrir tímabilið. ÍBV vann leikinn 30-29 eftir æsispennandi lokamínútur. Eyjamaðurinn Róbert Aron Hostert var valinn besti leikmaður mótsins.

Andri Heimir Friðriksson skoraði 11 mörk fyrir ÍBV og Róbert Aron Hostert var með sex mörk en Björgvin Hólmgeirsson skoraði mest fyrir ÍR eða sjö mörk.

HK varð í 3. sæti eftir sannfærandi 29-23 sigur á Aftureldingu í leiknum um þriðja sætið. Markahæstur hjá HK var Jóhann Reynir Gunnlaugsson með 10 mörk en hjá Aftureldingu var það Hrannar Guðmundsson með 4 mörk.

Selfoss lenti í 5 sæti eftir að hafa unnið Gróttu í vítakeppni 6-5 en sjálfur leikurinn endaði með 24-24 jafntefli. Staðan í hálfleik var 13-8 Gróttu í vil og náðu þeir mest 9 marka forrystu 20-11 áður en Selfoss átti magnaðan lokasprett og jafnaði metin í 24-24. Markahæstir hjá Selfoss voru Elvar Örn Jónsson með 4 mörk og Jóhannes Eiríksson, Sverrir Pálsson, Ómar Magnússon og Hrannar Gunnarsson með 3 mörk hver. Hjá Gróttu voru það þeir Vilhjálmur Hauksson og Jökull Finnbogason sem voru markahæstir með 5 mörk hvor.

Veitt voru einstaklingsverðlaun að móti loknu sem sérstök dómnefnd sá um að velja.

Markahæsti leikmaður: Andri Heimir Friðriksson ÍBV 20 mörk

Besti markmaður: Sebastian Alexandersson Selfoss

Besti varnarmaður: Sindri Haraldsson ÍBV

Besti sóknarmaður: Arnar Birkir Hálfdánarson ÍR

Besti leikmaður: Róbert Aron Hostert ÍBV




Fleiri fréttir

Sjá meira


×