Sport

Usain Bolt íhugaði að hætta

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Usian Bolt.
Usian Bolt. Nordicphotos/Getty
Fótfráasti maður veraldar, Usain Bolt frá Jamaíka, íhugaði að leggja skóna á hilluna árið 2006. Síðan hefur hann unnið sex gullverðlaun á Ólympíuleikum og átta á heimsmeistaramótum.

Heimsmethafinn í 100 og 200 metra hlaupi segir í ævisögu sinni frá augnabliki árið 2006 sem fékk hann til að íhuga framtíð sína. Bolt þurfti þá að hætta keppni í 4x400 metra hlaupi á heimavelli í Kingston vegna meiðsla.

Brot úr bókinni er birt í The Times og þar lýsir hann viðbrögðum fólks í stúkunni þegar hann dró sig í hlé.

„Ég svipaðist um eftir þjálfaranum mínum á meðal fólksins í stúkunni. Eftir því sem ég færðist nær heyrði ég baul, svo annað og svo fleiri,“ segir Bolt.

„Hávaðinn magnaðist með hverju skrefi mínu í átt að stúkunni. Fólk fullyrti að ég hefði aðeins hætt af því ég átti ekki möguleika á sigri. Þeir bauluðu á mig fyrir að haltra útaf,“ segir Jamaíkamaðurinn sem var ekki skemmt.

„Hvað í ósköpunum er þetta? hugsaði ég. Mér leið illa, afar illa. Hvaðan kom þetta? Heimur minn hrundi og ég trúði ekki mínum eigin eyrum.“

Bolt, sem þá var 19 ára, segir að gagnrýni landsmanna hans hafi fengið sig til að fara í sjálfskoðun.

„Er þetta að ganga? Ætti ég að halda áfram? Allt sem ég geri og þrátt fyrir hve hart ég legg að mér þá gæti verið að þetta sé ekki fyrir mig.“

Bolt ákvað þó að halda ótrauður áfram og sér ekki eftir því í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×