Sport

Lyfjamisnotkun þýskra íþróttamanna gerð upp

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr úrslitaleik V-Þjóðverja og Englands á HM í knattspyrnu árið 1966.
Úr úrslitaleik V-Þjóðverja og Englands á HM í knattspyrnu árið 1966. Nordicphotos/AFP
Vestur-Þjóðverjar, líkt og grannar þeirra í austri, reyndu vísvitandi að auka hróður sinn á íþróttavellinum með markvissri lyfjamisnotkun. Þetta kemur fram í skýrslu sem birt var almenningi í gær.

Íþróttamálaráð Þýskalands kemur að gerð skýrslunnar en rannsóknin var unnin innan tveggja háskóla í Þýskalandi. Bendir ýmislegt til þess að meira að segja leikmenn í vestur-þýska landsliðinu í knattspyrnu árið 1966 hafi neitt árangursaukandi lyfja.

Ekki er svo að skilja að vestur-þýskir íþróttamenn hafi ekki fallið á lyfjaprófum í gegnum tíðina. Hins vegar var alltaf talið að um einstök tilfelli væri að ræða á meðan Austur-Þjóðverjar reyndu eftir fremsta megni að aðstoða íþróttamenn síns til að auka hróður þjóðar sinnar í heiminum.

Í skýrslunni kemur fram að svipað hafi verið uppi á teningnum vestan við Járntjalið. Fjölmargir vestur-þýskir íþróttamenn hafi meðal annars neitt ólöglegra efna á Ólympíuleikunum árið 1976.

„Þetta er góður dagur í baráttunni gegn ólöglegum lyfjum,“ sagði Thomas Bach, forseti Ólympíusambands Þýskalands, í tilefni útgáfu skýrslunnar. Bach, sem er í framboði til forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar, sagði að niðurstöðurnar myndu styrkja Þjóðverja í baráttunni gegn lyfjanotkun í íþróttum.

Þjóðverjar áætla að verja jafnvirði 560 milljónum króna í baráttunni gegn lyfjtanotkun í íþróttum árið 2013 hefur Reuters eftir talsmanni rannsóknarteymisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×