Stefán Logi Sívarsson var handtekinn við sumarbústað í Miðhúsaskógi í Biskupstungum fyrir stundu. Sérsveit lögreglu stóð að handtökunni, en fimm lögreglubílar voru á staðnum og viðbúnaður mikill.
Sjónarvottur sagði í samtali við Vísi að handtakan hefði tekið um það bil fjórar mínútur. Þá sást Stefán leiddur inn í lögreglubíl í járnum.
Fréttablaðið greindi frá því að fjölmennt lið lögreglu frá Reykjavík og Selfossi hefði leitað að Stefáns Loga vegna meintrar frelsissviptingar og hrottalegrar líkamsárásar sem á að hafa átt sér stað á Stokkseyri fyrir skömmu. Þyrla Landhelgisgæslunnar tók þátt í leitinni.
Lýsingarnar á ofbeldinu eru mjög grófar samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Meðal annars mun þolandinn vera með áverka eftir svipuhögg á bakinu. Rótin að árásinni er sögð vera persónulegar deilur Stefáns við þolandann.
Fjórir menn hafa verið handteknir vegna málsins, tveir þeirra voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í fyrradag og voru tveir aðrir leiddir fyrir Héraðsdóm Reykjaness á sjötta tímanum í kvöld.
