Sport

Tími Anítu hefði dugað til sigurs á EM U23

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aníta með silfurverðlaunahafanum Dureti Edao í gær.
Aníta með silfurverðlaunahafanum Dureti Edao í gær. Nordic Photos / Getty Images
Evrópumeistaramót 23 ára og yngri fór fram í Finnlandi um helgina en tíminn sem dugði til sigurs í 800 m hlaupi kvenna þar er lakari en tími Anítu Hinriksdóttir á HM U17 um helgina.

Mirela Lavric frá Rúmeníu fékk gull í greininni en hún hljóp á 2:01,56 sem er besti tími ársins hjá henni. Aníta hljóp á 2:01,13 er hún varð heimsmeistari ungmenna í Úkraínu í gær.

Aníta keppir næst á EM U19 á Ítalíu um helgina og verður að teljast í hópi sigurstranglegustu keppenda greinarinnar þar. Hin breska Jessica Judd á þó betri tíma en Aníta á árinu en Judd er átján ára og var því ekki gjaldgeng á HM U17 um helgina.

Besti tími Judd í 800 m hlaupi er 1:59,85 mínútur en þess má geta að hún vann silfur á HM U19 á Spáni í fyrra þar sem að Aníta hafnaði í fjórða sæti. Íslandsmet Anítu er 2:00,49 mínútur.

Mary Cain frá Bandaríkjunum, jafnaldra Anítu, á besta tíma ársins í flokki ungmenna, 1:59,51 mínútur, en ákvað að sleppa mótinu í Úkraínu til að einbeita sér að HM fullorðinna í Moskvu í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×