Íslenski boltinn

Selfoss stöðvaði Grindavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ingólfur Þórarinsson fagnar marki.
Ingólfur Þórarinsson fagnar marki. Mynd/Daníel
Eftir sex sigurleiki í röð tapaði Grindavík í kvöld fyrir Selfossi, 3-1 á heimavelli, í 1. deild karla í kvöld.

Ingólfur Þórarinsson skoraði fyrsta mark leiksins fyrir gestina á 36. mínútu en Sindri Snær Magnússon hin tvö. Stefán Þór Pálsson skoraði mark Grindavíkur.

Tindastóll og KA gerðu 2-2 jafntefli í fyrsta leik fyrrnefnda liðsins á Sauðárkróksvelli. Völlurinn kom eins og fleiri afar illa undan vetri en hann var grænn og fallegur í kvöld.

Öll mörk leiksins voru skoruð á síðasta stundarfjórðungi fyrri hálfleiks. Steven Beattie kom heimamönnum yfir með marki úr vítaspyrnu en Edvard Börkur Óttharsson jafnaði metin fyrir KA, einnig úr vítaspyrnu.

Atli Sveinn Þórarinsson kom svo gestunum yfir á 39. mínútu en KA missti svo Ivan Dragicevic af velli með rautt spjald fimm mínútum síðar.

Beattie skoraði svo annað mark sitt á 45. mínútu og þar við sat.

Þróttur gerði svo markalaust jafntefli við Fjölni, sem og Leiknir gegn Haukum.

Grindavík er enn á toppi deildarinnar með átján stig en BÍ/Bolungarvík og Haukar koma næstir með fimmtán stig hvor. Fyrrnefnda liðið á þó leik til góða.

Selfoss komst upp í ellefu stig með sigrinum í kvöld og er um miðja deild. Þróttur og Völsungur eru í tveimur neðstu sætunum en KF, KA og Tindastóll þar fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×