Sport

Ásdís kastar í Róm

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/AFP

Spjótkastskonan Ásdís Hjálmsdóttir verður á meðal keppenda á Demantamóti í Róm í kvöld.

Ásdís flaug til Rómar í gær frá Sviss þar sem hún æfir hjá þjálfara sínum Terry McHugh. Hún verður við æfingar ytra í sumar og á þannig greiðari aðgang að mótum í Evrópu.

„Miklar breytingar hafa orðið á högum mínum síðastliðna viku. Ég flutti úr íbúð minni í Reykjavík og verð í Sviss í sumar," skrifaði Ásdís á heimasíðu sína í gær.

Af þeim níu keppendum sem berjast um sigurinn í Róm í kvöld á Ásdís slakastan árangur það sem af er ári. Hún er hins vegar í áttunda sætinu ef litið er til besta árangurs keppenda.

Meðal þeirra sem kasta í kvöld eru Christina Obergföll frá Þýskalandi sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum árið 2012. Þar verður sömuleiðis hin rússneska Mariya Abakumova. Báðar eiga köst yfir 70 metra.

Íslandsmet Ásdísar frá því á Ólympíuleikunum í London er 62,77 metrar. Hennar besta kast í ár er 57,63 metrar. Besti árangur hennar á mótaröðinni í fyrra var í Lausanne í Sviss. Þá kastaði hún 59,12 metra.

Keppni í spjótkasti hefst klukkan 18.45 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×