Íslenski boltinn

Leiknismenn í góðum gír á Húsavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli

Leiknismenn sóttu þrjú stig á Húsavík í kvöld þegar liðin mættust í 3. umferð 1. deildar karla. Reykjavíkurmeistararnir voru búnir að gera jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum en lönduðu nú fyrsta sigri sínum þegar þeir mættu nýliðum Völsungs.

Völsungur hefur þar með tapað tveimur fyrstu heimaleikjum sínum og eru Völsungar bæði stigalausir og markalausir í þessum tveimur leikjum sínum á Húsavíkurvelli. Húsvíkingar náðu aftur á móti í stig á móti Tindastól í Boganum.

Brynjar Hlöðversson kom Leikni í 1-0 strax á fimmtu mínútu leiksins og Hilmar Árni Halldórsson skoraði síðan úr víti á 31. mínútu og kom Breiðhyltingum þar með í 2-0. Ólafur Hrannar Kristjánsson skoraði síðan þriðja markið á 62. mínútu.

Leiknismenn höfðu lent 0-1 undir í fyrstu tveimur leikjum sínum en tókst þá að jafna og tryggja sér eitt stig.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar frá heimasíðu Knattspyrnusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×