Formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs segir nýja ríkisstjórn þurfa að hafa breiða skírskotun og horfa til framtíðar. Hún segir áherslur Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á skattalækkanir og niðurfellingu skulda ekki til þess fallnar að til að tryggja félagslegt réttlæti á Íslandi.
Eins og málin standa núna er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, að fara í stjórnarandstöðu. Aðspurð um það sem vænta má úr stjórnarmyndunarviðræðum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, bendir Katrín að verkefnin framundan séu ærin og á sama tíma sé staða ríkissjóðs viðkvæm.
„Þannig að blanda af miklum skattalækkunum eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað, skuldaniðurfellingum og atvinnuuppbyggingu sem ég tel hugsanlega geta gengið mjög á umhverfið, þá held ég að það sé ekki sú breiða skírskotun sem við þurfum á að halda," segir Katrín.
Þá ítrekar Katrín að á þessum tímapunkti sé nauðsynlegt fyrir ríkisstjórn og almenning að horfa til lengri tíma. Kosningaloforð Framsóknarflokks og sér í lagi Sjálfstæðisflokks um skattalækkanir samrýmist þeim áherslum ekki.
„Þá eru skattalækkanir upp á tug milljarða ekki endilega besta leiðin til að ná hér árangri út úr kreppu, þannig að við tryggjum hér jöfnuð og félagslegt réttlæti.“
