Innlent

Mesta fylgistap VG í kjördæmi Þjórsár og Helguvíkur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá Þjórsá.
Frá Þjórsá.
Vinstri grænir fengu hlutfallslega minnst fylgi á landsvísu í Suðurkjördæmi, 5,9 prósent, og þar varð fylgistap flokksins hlutfallslega mest. Flokkurinn hlaut þar aðeins 1.582 atkvæði, eða 5,9 prósent, en í kosningunum 2009 hlaut flokkurinn 4.615 atkvæði í Suðurkjördæmi eða 17,1 prósent atkvæða. VG tapaði þar þingsæti og tveimur þriðju af fylgi sínu og er Suðurkjördæmi nú eina kjördæmið þar sem flokkurinn kom engum þingmanni að.

Svo vill til að í Suðurkjördæmi eru nokkur umdeildustu verkefnin sem tekist var á um í umræðum um rammaáætlun og stóriðju í aðdraganda kosninganna; þar á meðal virkjanir í Þjórsá, jarðhitasvæði Reykjanesfjallgarðs og iðnaðarsvæðið í Helguvík.

Athyglisvert er að í Norðausturkjördæmi fengu Vinstri grænir hlutfallslega mest fylgi á landsvísu, eða 15,8 prósent, og tvö þingsæti. Þar eru einnig umdeild iðnaðaráform á Bakka með jarðhitavirkjunum. Oddviti flokksins í kjördæminu, Steingrímur J. Sigfússon, greiddi hins vegar fyrir þeim uppbyggingaráformum, í andstöðu við Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra, þegar hann stóð fyrir sérstakri lagasetningu um ívilnanir, sem Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, studdi. Svandís sat hins vegar hjá í atkvæðagreiðslu um stjórnarfrumvörp Steingríms.

Útkoma Katrínar og Svandísar varð einnig ólík en þær leiddu hvor sinn VG-lista í Reykjavíkurkjördæmum. Í Reykjavík norður, með Katrínu í efsta sæti, hlaut VG 15,7% atkvæða, og tvo þingmenn, tapaði um þriðjungi fylgisins. Í Reykjavík suður, með Svandísi í efsta sæti, hlaut VG 12,1% atkvæða, og einn þingmann og tapaði nærri helmingi fyrra fylgis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×